Frumkvöðlaflokkur hafinn

Í morgun kl. 9.00 lögðu af stað frá Akureyri 24 frumkvöðlar í þriggja daga flokk á Hólavatni. Um er að ræða 7-9 ára stráka og stelpur sem mörg eru að stíga sín fyrstu skref sem Hólvetningar. Þessi fyrsti flokkur sumarsins er frábrugðinn öðrum flokkum þar sem hann er styttri og endar með því að foreldrar og systkini koma í heimsókn á laugardag kl. 11 og eftir sameiginlega dagskrá fara börnin svo heim með foreldrum sínum. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var fallegt við Hólavatn í morgun en þó er útlit fyrir frekar kalt sumarveður þessa fyrstu daga en vonandi verður þurrt og hægur vindur.

Fullbókað er í annan og þriðja flokk sumarsins og þegar eru komin börn á biðlista. Eitthvað er þó laust í flokka síðar í sumar en skráning er almennt góð og útlit fyrir að næstum fullt verði í flesta flokka sumarsins. Ennþá er hægt að skrá inn á www.sumarfjor.is og viljum við sérstaklega minna á samstarf við Mæðrastyrksnefnd Akureyrar um stuðning við börn frá efnaminni fjölskyldum en þeir sem vilja kynna sér það frekar geta hringt á skrifstofu félagsins í síma 5888899.

Kaffisala Hólavatns og ljósmyndasýning

Árleg kaffisala sumarbúðanna Hólavatni fer fram sunnudaginn 16. ágúst kl. 14.30-17.00. Fjölmargt í boði fyrir alla fjölskylduna, útileiktæki, bátar o.fl. Rétt er að vekja athygli á því að ekki er tekið við greiðslukortum en gjald fyrir fullorðna er 1.500 kr. en 500 kr. fyrir börn 6-12 ára.  Á kaffisölunni verða til sýnis og sölu fuglamyndir Eyþórs Inga Jónssonar en söluandvirði myndanna rennur til sumarbúðanna. Sýningin ber yfirskriftina „Fuglar í nágrenni Hólavatns“ og er styrkt af Menningarsjóði Akureyrar og er í tilefni 50 ára afmælis Hólavatns.

Sumarið gekk ljómandi vel á Hólavatni í sumar en alls dvöldu tæplega 250 börn í 9 dvalarflokkum og er það mjög svipuð aðsókn og sumarið 2014. Þrátt fyrir frekar kaldan júlímánuð var góð stemming og mikið um útiveru og bátaferðir. Það er óskandi að vinir og velunnarar Hólavatns vilji koma og taka þátt í gleðinni með okkur á kaffisölu á sunnudaginn. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Hólavatn 50 ára

 

Í tilefni af 50 ára vígsluafmæli sumarbúða KFUM og KFUK við Hólavatn var haldinn afmælisfögnuður laugardaginn 20. júní. Dagskráin hófst með því að 14 manns hjóluðu frá Akureyri og fram á Hólavatn tæplega 40 kílómetra leið. Klukkan tvö hófst svo hátíðardagskrá í blíðskaparveðri. Jóhann Þorsteinsson, ritari stjórnar Hólavatns, bauð gesti velkomna og rifjaði upp í stuttu máli aðdraganda og upphaf sumarstarfs við Hólavatn. Því næst flutti Auður Pálsdóttir, formaður KFUM og KFUK á Íslandi, kveðju frá stjórn og afhenti Hreini Andrési Hreinssyni, formanni stjórnar Hólavatns, fallegan sköld með árnaðaróskum í tilefni afmælisins. Fleiri afmæliskveðjur bárust og jafnframt voru sungnir Hólavatnssöngvar. Dagskráin endaði með því að Auður Pálsdóttir gerði Guðmund Ómar Guðmundsson að heiðursfélaga KFUM og KFUK á Íslandi fyrir óeigingjarnt og farsælt starf í þágu félagsins um áratuga skeið. Sannarlega ánægjuleg viðurkenning enda Guðmundur verið ein af helstu burðarstoðum félagsstarfsins á Norðurlandi um langt skeið. Að ræðuhöldum loknum var gestum boðið upp á afmælisköku og kaffi og svo tóku við bátsferðir, vatnabolti og leiktæki. Gestir nutu veðurblíðunnar fram eftir degi og í lok dags fór starfsfólkið saman og gróðursetti 80 furutré, 4 Reyniviðartré og 80 aspir. Sannarlega góður endir á 50 ára afmælisdeginum að gróðursetja tré fyrir framtíðina.

Myndir frá afmælishátíðinni má skoða hér.

3. flokkur á Hólavatni

 

Á morgun, föstudag lýkur þriðja flokk sumarsins á Hólavatni en stelpurnar hafa notið veðursins og skemmtilegrar dagskrár í vikunni. Á 17. júní var boðið upp á Candyfloss og farið í skrúðgöngu og margt gert til að gera þjóðhátíðardaginn einstakan. Heimkoma er á morgun kl. 15.00 við Sunnuhlíð. Á laugardag er svo 50 ára afmælishátíð á Hólavatni fyrir alla fjölskylduna og hefst dagskráin kl. 14.00.

Myndir úr flokknum koma um helgina en nokkrar myndir frá þriðjudeginum eru þegar komnar á netið og má skoða þær hér.