Í morgun kl. 9.00 lögðu af stað frá Akureyri 24 frumkvöðlar í þriggja daga flokk á Hólavatni. Um er að ræða 7-9 ára stráka og stelpur sem mörg eru að stíga sín fyrstu skref sem Hólvetningar. Þessi fyrsti flokkur sumarsins er frábrugðinn öðrum flokkum þar sem hann er styttri og endar með því að foreldrar og systkini koma í heimsókn á laugardag kl. 11 og eftir sameiginlega dagskrá fara börnin svo heim með foreldrum sínum. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var fallegt við Hólavatn í morgun en þó er útlit fyrir frekar kalt sumarveður þessa fyrstu daga en vonandi verður þurrt og hægur vindur.

Fullbókað er í annan og þriðja flokk sumarsins og þegar eru komin börn á biðlista. Eitthvað er þó laust í flokka síðar í sumar en skráning er almennt góð og útlit fyrir að næstum fullt verði í flesta flokka sumarsins. Ennþá er hægt að skrá inn á www.sumarfjor.is og viljum við sérstaklega minna á samstarf við Mæðrastyrksnefnd Akureyrar um stuðning við börn frá efnaminni fjölskyldum en þeir sem vilja kynna sér það frekar geta hringt á skrifstofu félagsins í síma 5888899.