Í morgun voru mættar 33 sprækar stúlkur í Sunnuhlíð fullar tilhlökkunar að komast á Hólavatn. Ferðin gekk vel og var hafist handa við að koma sér fyrir herbergjum eftir stutta kynningu á starfsfólki og helstu reglum. Þar með hófst fjörið! Sumar stúlkurnar tóku smá tíma í að kynna sér leiksvæðið á meðan aðrar eru öllum hnútum kunnar og vissu nákvæmlega hvar skyldi finna uppáhalds staðina og leiktækin. Helstu dagskrárliðir í dag voru hópeflisleikir, bátasiglingar og furðukeppni. Furðukeppnin verður í gangi alla vikuna og hófst keppnin í dag á brúsahaldi, sem gengur út á að halda fimm lítra brúsa á lofti og reyndi því aðeins á krafta stúlknanna. Ýmsar ólíkar greinar verða í boði í vikunni og má þar á meðal nefna stígvélaspark og broskeppni. Kvöldið var endað á klassískri kvöldvöku þar sem var heilmikið sungið, farið leiki og foringjar skemmtu stelpunum með hlægilegum leikþáttum. Það voru sælar og saddar stúlkur sem lögðust í bólið í kvöld sem bíða spenntar eftir ævintýrum morgundagsins. Það stefnir allt í frábæra viku með yndislegum stelpum á Hólavatni.
Hér eru nokkrar myndir frá því í dag.
Bestu kveðjur,
Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona í 3. flokki.