3. flokkur – dagur 4

Tíminn hefur heldur betur flogið áfram á Hólavatni. Síðasta heila deginum er lokið og stefnt er á heimferð á morgunn. Þessi dagur hefur verið senn fallegur, hlýr og viðburðaríkur í sumarbúðunum sem fyrri dagar. Það er alveg hreint ótrúlegt hvað við höfum verið heppin með veður þessa vikuna, sólin hefur leikið við okkur og veðurblíðan verið allsráðandi. Í dag var veisludagur og var hann haldinn hátíðlegur. Formleg hátíðardagskrá hófst á brennóleikjum við foringja því næst var haldið í veislukvöldverð þar sem stelpurnar klæddu sig upp fyrir kvöldið. Í kvöldmatinn voru afar veglegir hamborgarar sem runnu ljúflega niður í stelpurnar. Þvínæst tók við veislukvöldvaka þar sem starfsfólk sýndi stórfenglega leikþætti og sungu hið nýja Hólvatnslag. Þreyttar og sælar stúlkur lögðust til svefns í kvöld. Af öðrum dagskrárliðum dagsins má m.a. nefna hárgreiðslukeppni og furðuleikahátíð, sem innihélt afar spennandi stígvélaspark.

Á morgun heimsækjum við Hólakirkju, pökkum saman og eigum kveðjustund. Þið megið búast við okkur í Sunnuhlíð klukkan 15 á morgun.

Hér má sjá myndir úr flokknum

Við starfsfólkið höfum svo sannarlega notið vikunnar með dætrum ykkar og vonumst við Hólvetningar til þess að sjá þessar spræku stúlkur aftur að ári.

Starfsmenn Hólavatns þakka fyrir sig.

Bestu kveðjur,

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona í 3. flokki

3. flokkur – dagur 3

Þar sem klukkan er orðin margt hérna á Hólavatni ætlar undirrituð að láta myndirnar tala sínu máli að mestu. Fallegur, sólríkur og annríkur dagur að baki sem innihélt m.a. vatnafjör, báta, busl, EM- fótboltaleik, sveitaferð og náttfatapartý. Seinnipartinn fórum við í heimsókn á sveitabæinn Vatnsenda þar sem stelpurnar fengu að mjólka kýr, leika sér í heyinu, gefa heimalning að drekka auk þess að heilsa upp á kettling og hund. Til að toppa ferðina fengu þær far með Sveini bónda á heyvagni til baka og að sjálfsögðu var sungið Hólavatnslög alla leiðina til baka. Eftir kvöldvöku ætti dagurinn að öllu jöfnu að vera lokið en þeim að óvörum tók við náttfatapartý með tilheyrandi dansi, leikþáttum og sprelli. Ánægðar og þreyttar stúlkur lögðust til svefns í kvöld.

Hér eru nokkrar myndir frá því í dag.

Bestu kveðjur,

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona.

3. flokkur – Dagur 2

Í dag vöknuðu stúlkurnar eftir fyrstu nóttina á Hólavatni og blasti við okkur alveg dásamleg veðurblíða, sem stúlkurnar eru aldeilis búnar að njóta. Í dag er búið að busla heilmikið, sigla um á bátum á vatninu og flestar stúlkurnar fengið að prófa kúluna, sem gerir manni kleyft að ganga á vatni. Eftir kaffi fóru þær í ævintýraleik þar sem „geimverur“ birtust í skógarrjóðrinum og þær þurftu á aðstoð „prófessors Vandráðs“ að halda til að leysa þrautir. Sumum stelpunum stóð nú ekki á sama þegar geimverunar birtust en vildu meina að þær hafi nú vitað frá upphafi að þetta væru ekki alvöru geimverur. Kvöldvaka að hætti Hólavatns var haldin í kvöld og fékk hluti stúlknahópsins að stíga á stokk með eigin atriði. Hinn helmingurinn fær að sýna annað kvöld. Í svona mikilli útiveru og dagskrá eru það svangar stúlkur sem mæta í matmálstímana en þær hafa verið heldur betur duglegar að borða matinn og kræsingarnar sem matráðskonan okkar ber fram, enda eru þær ekki af verri endanum.

Á morgun höldum við ótrauðar áfram.

Bestu kveðjur,

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona í 3. flokki.

Hér má sjá nokkrar myndir frá flokknum.

3. flokkur, dagur 1

Í morgun voru mættar 33 sprækar stúlkur í Sunnuhlíð fullar tilhlökkunar að komast á Hólavatn. Ferðin gekk vel og var hafist handa við að koma sér fyrir herbergjum eftir stutta kynningu á starfsfólki og helstu reglum. Þar með hófst fjörið! Sumar stúlkurnar tóku smá tíma í að kynna sér leiksvæðið á meðan aðrar eru öllum hnútum kunnar og vissu nákvæmlega hvar skyldi finna uppáhalds staðina og leiktækin. Helstu dagskrárliðir í dag voru hópeflisleikir, bátasiglingar og furðukeppni. Furðukeppnin verður í gangi alla vikuna og hófst keppnin í dag á brúsahaldi, sem gengur út á að halda fimm lítra brúsa á lofti og reyndi því aðeins á krafta stúlknanna. Ýmsar ólíkar greinar verða í boði í vikunni og má þar á meðal nefna stígvélaspark og broskeppni. Kvöldið var endað á klassískri kvöldvöku þar sem var heilmikið sungið, farið leiki og foringjar skemmtu stelpunum með hlægilegum leikþáttum. Það voru sælar og saddar stúlkur sem lögðust í bólið í kvöld sem bíða spenntar eftir ævintýrum morgundagsins. Það stefnir allt  í frábæra viku með yndislegum stelpum á Hólavatni.

Hér eru nokkrar myndir frá því í dag.

Bestu kveðjur,

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona í 3. flokki.