Tíminn hefur heldur betur flogið áfram á Hólavatni. Síðasta heila deginum er lokið og stefnt er á heimferð á morgunn. Þessi dagur hefur verið senn fallegur, hlýr og viðburðaríkur í sumarbúðunum sem fyrri dagar. Það er alveg hreint ótrúlegt hvað við höfum verið heppin með veður þessa vikuna, sólin hefur leikið við okkur og veðurblíðan verið allsráðandi. Í dag var veisludagur og var hann haldinn hátíðlegur. Formleg hátíðardagskrá hófst á brennóleikjum við foringja því næst var haldið í veislukvöldverð þar sem stelpurnar klæddu sig upp fyrir kvöldið. Í kvöldmatinn voru afar veglegir hamborgarar sem runnu ljúflega niður í stelpurnar. Þvínæst tók við veislukvöldvaka þar sem starfsfólk sýndi stórfenglega leikþætti og sungu hið nýja Hólvatnslag. Þreyttar og sælar stúlkur lögðust til svefns í kvöld. Af öðrum dagskrárliðum dagsins má m.a. nefna hárgreiðslukeppni og furðuleikahátíð, sem innihélt afar spennandi stígvélaspark.

Á morgun heimsækjum við Hólakirkju, pökkum saman og eigum kveðjustund. Þið megið búast við okkur í Sunnuhlíð klukkan 15 á morgun.

Hér má sjá myndir úr flokknum

Við starfsfólkið höfum svo sannarlega notið vikunnar með dætrum ykkar og vonumst við Hólvetningar til þess að sjá þessar spræku stúlkur aftur að ári.

Starfsmenn Hólavatns þakka fyrir sig.

Bestu kveðjur,

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona í 3. flokki