Í gær komu 35 hressar stúlkur hingað á Hólavatn. Eftir að búið var að skipta í herbergi og passa að allar vinkonur væru saman var haldið út í skoðunarferð um svæðið og svo var frjálst tími fram að hádegismat. Í matinn var candýfloss-skyr og brauð í boði okkar einstöku ráðskonu, Báru Dísar, og rann þetta ljúflega niður hjá stelpunum. Haldið var svo upp í laut í hópleiki og létu stelpurnar smá rigningu og blautt gras ekki stoppa sig! Í kaffitímanum var boðið upp á epla-möffins, appelsínur og mjólkurkex. Fram að kvöldmat var svo vinabandakennsla, hægt að fá fléttur í hárið og lita en einnig var að sjálfsöðgðu í boði að leika úti fyrir þær allra hörðustu en það hvessti allnokkuð og rigndi þennan fyrsta dag svo flestar stelpurnar völdu að hafa það notalegt inni. Þetta er alveg ótrúlega góður hópur af áhugasömum stelpum, þær koma vel fram, bera virðingu fyrir hvor annarri og ganga einstaklega vel um! Í kvöldmatinn var hakk og spagetti sem var svo vinsælt að ráðskonan hefur ekki séð annað eins! og að henni lokinni var kvöldvaka þar sem foringjarnir héldu uppi stuðinu á sinn einstaka hátt. Öll kvöld enda svo á hugleiðingu en fyrsta kvöldið talaði Baddi til stúlknanna og svo var beðið með hópnum. Þeim var svo tjáð að eftir að þær væru búnar að koma sér í háttinn myndi einn foringi koma til þeirra en þeim að óvöru höfðu foringjarnir falið sig úti svo 35 stelpur hlupu á náttfötunum út að finna sinn foringja sem vakti mikla lukku. Hér á Hólavatni er sú hefð að hvert herbergi fær sinn bænaforingja sem er þeirra foringi út alla vikuna, hann kemur inn í herbergin á kvöldin, biður með þeim og spjallar og getað stúlkurnar leitað sérstaklega til hans ef eitthvað er. Auk þeirra eru þessa vikuna fimm frábærir ungleiðtogar sem sinna ýmsum verkefnum og hafa náð einstaklega vel til hópsins. Fyrsta kvöldið og nóttin gekk nokkuð vel fyrir sig og eru við ótrúlega heppin að fá að verja vikunni með þessum flottu stúlkum!
Þórhildur Einarsdóttir,
forstöðukona