Dagurinn í gær byrjaði kl. 08:30 en þá voru stelpurnar vaktar. Flestar voru þó vaknaðar fyrr og höfðu það notalegt inn í herbergi að lesa eða spjalla lágt saman. Í morgunmat var boðið upp á hafragraut, kornflex og cherios og síðan fengu stelpurnar tíma til að laga til í herbergjunum sínum. Hér á Hólavatni er afar spennandi stjörnukeppni þar sem herbergin keppast við að hafa herbergin sín fín en einnig er hluti keppninnar að sína góða hegðun og að vera duglegar að fara að sofa. Stelpurnar hafa staðið sig afar vel það sem af er liðið og verður spennandi að sjá hvaða herbergi sigrar að lokum!
Í hádegismat var boðið upp á dýrindis mjólkurgraut sem var mjög vinsæll hjá stelpunum en að honum loknum var haldið upp í laut þar sem farið var í æsispennandi Hunger Games leik. Nýbakað súrdeigsbrauð, ávextir og kex beið svo stelpnanna í kaffinu áður en haldið var niður að vatni þar stelpurnar fengu að busla og hoppa í vatnið sem var mjög vinsælt. Þær héldu svo kaldar og blautar rakleiðis í sturtu og í kjölfarið höfðu það ýmist notalegt inni í vinabandagerð og fótboltaspili eða léku sér úti í körfubolta og hjólabílum. Í kvöldmatinn fengu stelpurnar pizzu og eftir hefðbundna kvöldvöku var þeim komið á óvart með náttfatapartýi þar sem foringjarnir léku á alls oddi og sýndu leikrit en einnig var boðið upp á limbó og setudans.
Stelpurnar voru einstaklega fljótar að sofna eftir langan en eftirminnilegan dag!
Við minnum svo á símatíma milli 11 og 12 og myndir frá flokknum hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157714826639141
Þórhildur Einarsdóttir,
forstöðukona