Góðan dag!
Í gær, á þriðja degi flokksins voru stelpurnar vaktar kl. 8:30 að venju, stór hluti hópsins var enn sofandi og greinilega komin þreyta eftir annasama daga hér á Hólavatni. Eftir morgunmat, fánahyllingu og morgunstund voru bátarnir opnir og vinabönd í boði og þrátt fyrir smá rigningu voru stelpurnar afar duglegar að leika sér úti. Í matinn var Hólavatns-fiskur í karrý en síðan var haldið beint út í stórskemmtilegan ævintýraleik þar sem herbergin hittu hinar ýmsar furðuverur og áttu að leysa allskyns þrautir. Þetta vaktir mikla lukku hjá stelpunum sem hlupu alsælar inn í kaffi en þar beið þeirra smurt brauð með kæfu, osti eða mysing og dýrindis Rice-Krispies kökur. Sólin gladdi okkur svo eftir kaffi og var afar hlýtt í veðri hér inni í firði, milt í veðri og nýttu stelpurnar margar sér það, fóru út á báta og óðu í vatninu eða sátu fyrir utan húsið, fengu fléttur í hárið, gerðu vinabönd og nutu veðurblíðunnar. Í matinn var pylsupasta og eftir hefðbundna kvöldvöku hlupu foringjarnir inn í sal með látum og skoruðu á allan flokkinn í fótbolta úti á velli. Margar stelpur tóku þátt og það fór svo að stelpurnar unnu foringjanna í vítaspyrnukeppni eftir afar spennandi leik! Haldið var svo niður að vatni þar sem beið þeirra varðeldur og sykurpúðar þar sem foringjarnir sögðu afar spennandi sögu af því þegar þeir hittu Górilluísbjörn og áttu sannkallaðan stórleik! Vel gekk að svæfa stelpurnar og greinilegt að hópurinn er afar þreyttur eftir fjörugan dag.
Við minnum á að rútan er væntanleg í Sunnuhlíð á föstudag kl. 15:00.
Bestu kveðjur,
Þórhildur Einarsdóttir.