Síðasti heili dagur 3. flokks rann upp í gær, svokallaður veisludagur, en ákveðið var að vekja stelpurnar aðeins seinna, eða kl. 9:00. Í morgumat á veisludegi er sú hefð að bjóða upp á ristað brauð og heitt kakó og vakti það mikla lukku. Morgunstundin var svo haldin í sólinni bakvið hús og kepptu stelpurnar í æsispennandi uppflettikeppni þar sem fulltrúi frá hverju herbergi átti að keppa við hin herbergin í að fletta upp versum úr Nýja Testamentinu. Fram að hádegismat fengu þær svo tíma til að undirbúa atriði en eftir dýrindis kjúklingasúpu í hádeginu var haldin hæfileikasýning þar sem stelpurnar létu ljós sitt skína með söng, leikritum og öðrum frumlegum atriðum. Stelpurnar stóðu sig með eindæmum vel, sýndu mikið hugrekki og hvöttu hvor aðra áfram. Eftir að hafa svo gætt sér á dýrindis möffins og öðru góðgæti í kaffinu tóku stelpurnar sig til og undirbjuggu herbergin fyrir gestina Kústhildi og Sprittfríði sem gengu á milli herbergja og fengu meðal annars nudd, tattú og annað dekur frá herbergjunum. Veislukvöldmaturinn samanstóð svo af grilluðum hamborgurum og meðlæti sem sló í gegn og eftir myndatöku úti hófst veislukvöldvaka þar sem foringjarnir héldu uppi fjörinu langt fram á kvöld með söng, leikritum, atriðum, gríni og glensi. Eftir velheppnaðan veisludag fóru stelpurnar þreyttar en ánægðar að sofa.

Brottfarardagur hófst á hefðbundin hátt með vakningu og morgunmat en síðan fengu stelpurnar tíma til að pakka dótinu sínu. Þá var gengið af stað í Hólakirkju þar sem morgunstundin var haldin og er komið var til baka beið stelpnanna hlaðborð af pizzum, hamborgurum, ávöxtum og kexi. Þær höfðu svo tíma til að leika sér úti áður en lokastundin fór fram er þar var tilkynnt um sigurverara stjörnukeppninar, sögð saga af Hólavatnsorminum og ýmislegt fleira. Allar fengu svo viðurkenningarspjald fyrir þátttöku áður en kveðjustundin hófst og að því loknu hélt hópurinn af stað inn í rútuna.

Við á Hólavatni þökkum stelpunum kærlega fyrir samveruna og vonumst til að sjá sem flestar aftur að ári,

Þórhildur Einarsdóttir,
Forstöðukona