Á mánudagsmorgni stigu 18 spenntar stúlkur út úr rútunni hér á Hólavatni tilbúnar í að upplifa ævintýri í sumarbúðum. Eftir að búið var að fara í gegnum helstu reglur á staðnum var þeim skipt niður á herbergi og að sjálfsögðu passað að vinkonur væru saman. Þær fengu svo tíma til að kynnast, skoða staðinn og koma sér fyrir. Eftir dýrindis hádegismat var haldið í göngutúr um svæðið þar sem foringjarnir kynntu það helsta sem svæðið á Hólavatni hefur upp á að bjóða og héldu svo upp í Laut þar sem farið var í leiki til að hrista hópinn saman. Þegar stúlkurnar höfðu gætt sér á kökum í kaffinu var farið yfir bátareglur og bátarnir svo opnaðir sem vaktir mikla lukku. Einnig var í boði að leika sér í körfubolta, hjólabílum, trampólíni og fótboltaspili. Stúlkurnar eru afar duglegar að leika sér sjálfar, koma vel fram, eru jákvæðar, afar góðar við hver aðra og algjörlega til fyrirmyndar.

Um kvöldið var svo fyrsta kvöldvaka flokksins þar sem sungin voru lög, farið í leik og horft á leikrit frá foringjum. Að lokum var svo hlustað á sögu frá foringja og við enduðum daginn saman. Stúlkunum var svo tilkynnt að foringjar kæmu inn í herbergin til þeirra kl. 22 en hér á Hólavatni á hvert herbergi sinn bænaforingja sem les fyrir þær, biður með þeim og spjallar eftir daginn. Svo fór því ekki því blásið var í lúðurinn og stúlkurnar sendar á náttfötunum út í feluleik þar sem foringjarnir höfðu falið sig út í skógi. Eftir leikinn fóru stúlkurnar þreyttar en sáttar að sofa og gekk fyrsta kvöldið afar vel.

Hádegismatur: Skyr og brauð

Kaffitími: Súkkulaðikaka og hjónabandssæla

Kvöldmatur: Hakk og spaghetti

Kvöldkaffi: Epli og appelsínur

Minnum á símatíma milli kl. 11-12 og myndir á Flickr síðu Hólavatns, https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/collections/72157629303378717/

Bestu kveðjur,
Þórhildur Einarsdóttir,
forstöðukona