Stúlkurnar voru vaktar kl. 8:30 á sólríkum þriðjudagsmorgni. Margar voru ennþá sofandi en einhverjar höfðu vaknað fyrr og héldu sig þá inn í herbergjum og pössuðu að vekja ekki hinar. Þá var haldið í morgunmat og á morgunstund þar sem þær horfðu á stutt myndband um Sr. Friðrik Friðriksson sem stofnaði KFUM og KFUK. Bátarnir opnuðu í kjölfarið en annars var frjáls tími. Eftir hádegismat var ævintýraleikur þar sem stúlkurnar áttu að leysa ýmsar þrautir eins og að hitta í körfuna, skora úr víti og fleira. Fyrir það fengu þær strik á hendina og markmiðið var að ná að leysa allar þrautirnar á innan við klukkustund. Einn foringi hljóp svo á milli með spreybrúsa og tusku og reyndi að ná stúlkunum. Ef hann náði þeim mátti hann þurrka út eitt strik og þurftu þær því að fara aftur á þá stöð. Þessi leikur vakti mikla lukku og komu þreyttar og svangar stúlkur inn í kaffitímann þar sem boðið var upp á dýrindis eplaköku með rjóma. Svo héldu langflestar út á sundfötunum þar sem þær fengu að vaða, hoppa í vatnið og leika sér. Gaman var að fylgjast með hvað stelpurnar þorðu að hoppa í kalt vatnið! Þær fóru svo í heita sturtu og hlý föt. Kvöldvaka var eftir kvöldmat en að henni lokinni héldu stúlkurnar rakleiðis niður að vatni þar sem búið var að kveikja upp í varðeld. Sögð var saga og grillaðir sykurpúðar sem var afar vinsælt hjá hópnum. Um kl. 22:30 héldu þær að sofa enda langur dagur að baki.

Morgunmatur: Kornflex, Cheerios, hafragrautur
Hádegismatur: Blómkálssúpa og brauð
Kaffitími: Eplakaka með rjóma, kex
Kvöldmatur: Steiktur fiskur
Kvöldkaffi: Bananar, epli og sykurpúðar 🙂

Kveðjur héðan frá Hólavatni
Þórhildur Einarsdóttir,
forstöðukona