Síðasti heili dagur flokksins, svokallaður veisludagur, hófst með ristuðu og brauði í kakó sem er hefð hér á Hólavatni. Eftir matinn og morgunstund fengu stúlkurnar tíma til að undirbúa atriði fyrir hæfileikasýningu sem síðan var haldin eftir hádegismat. Stúlkurnar létu ljós sitt skína og það var virkilega gaman að sjá hvað þær sýndu mikið hugrekki að koma fram fyrir framan hópinn. Afar skrautlegir dómarar gáfu stúlkunum endurgjöf eftir atriðin en það var meira til gamans gert enda allir sigurvegarar sem tóku þátt! Þær fengu svo dýrindis súkkulaðiköku í kaffitímanum. Þegar honum lauk undirbjuggu stúlkurnar herbergin fyrir gestina Sprittfríði og Kústhildi sem kíktu í heimsókn í herbergin og fengu ýmislegt dekur hjá stúlkunum! Blásið var til veislukvöldmatar kl. 18:30 þar sem boðið var upp á hamborgara áður en haldið var fram í myndatöku þar sem hver bænaforingi stillti sér upp með sínu herbergi. Veislukvöldvakan heppnaðist afar vel en þá sýndu foringjarnir listir sínar með hverju leikritinu á fætur öðru. Endað var svo á ljúfri hugleiðingu og sungin kvöldsöngur Hólavatns í síðasta skipti.

Á brottfarardegi var gengið í Hólakirkju þar sem uppflettikeppni var haldin, saga kirkjunnar sögð og sungin nokkur lög. Þegar til baka var komið biðu eftir hópnum pylsur og djús, haldin var stutt lokastund áður en stúlkurnar héldu upp í rútu sáttar og glaðar eftir dásamlega viku hér á Hólavatni.

Fyrir hönd starfsfólks Hólavatns þakka ég kærlega fyrir samveruna og við vonumst til að sjá sem flestar aftur á næsta ári!
Þórhildur Einarsdóttir,
forstöðukona.