Í gær komu 16 virkilega hressir og áhugasamir unglingar í blíðskaparveðri hingað á Hólavatn. Þeim var skipt niður í þrjú herbergi: Strákarnir voru í Hólsgerði en stelpurnar í Hólum og Hólakoti. Hópurinn er mjög fjölbreyttur, flest þeirra hafa komið áður og mörg oftar en einu sinni en einnig eru nokkrir sem eru að koma í fyrsta skipti á Hólavatn og jafnvel í sumarbúðir. Hópurinn er strax orðinn þéttur og greinilegt að hér eru topp krakkar á ferð! Eftir hádegismat var sígildur dagsskrárliður hér á Hólavatni en farið var með krakkana upp í Laut og hópnum hrist saman með hópleikjum, Ultimate Frisbee og skotbolta. Síðan var kallað í kaffi en í flokknum er Pokemon Theme Song lagið spilað til að kalla hópinn saman í mat eða aðra dagsskrárliði. Veðrið lék við okkur og því var boðið upp á að hoppa í vatnið en hátalari var tekinn niður að vatni og góð stemning myndaðist. Sumir stukku af bryggjunni í vatnið, aðrir fóru að vaða og enn aðrir rifjuðu upp gamla takta frá því í fyrra og skelltu sér út á bát. Eftir sturtur og hlý föt var kallað í mat og svo seinna á fyrstu kvöldvöku flokksins. Þar var farið var í tvo skemmtilega leiki, lög sungin og horft á eitt foringjaleikrit. Að hugleiðingu og kvöldsöng loknum var haldið niður í Holy Water Café en það er staður á neðri hæð hússins þar sem búið er að setja nokkra sófa og búa til notalega stemningu. Þar var kvöldkaffið en eftir stutta stund hlupu foringjarnir niður og tilkynntu um náttfatapartý sem vakti mikla lukku! Það heppnaðist afar vel en meðal annars var farið í Limbó, tekinn Superman dansinn og ýmislegt fleira. Boðið var upp á ís í lok partýsins og horft á stuttmynd um Sr. Friðrik Friðriksson sem stofnaði KFUM og KFUK. Haldið var svo niður að varðeld þar sem fyrsti hluti framhaldssögu flokksins var sögð. Fyrsti dagurinn heppnaðist vel og krakkarnir orðnir virkilega þreyttir í lok dags og voru allir sofnaðir kl. 00:30.

Morgunmatur: morgunkorn og hafragrautur
Hádegismatur: skyr
Kaffitími: jógúrtkaka, brauð og ávextir
Kvöldmatur: pizza
Kvöldkaffi: ávextir

Við hlökkum til að verja komandi viku með þessum flottu krökkum!
Þórhildur Einarsdóttir,
forstöðukona.