Fréttir héðan frá Hólavatni!

Hér er allt gott að frétta af stelpunum í 4 flokki en hjá okkur núna eru hressar 32 stelpur víðsvegar af landinu!

Veðrið hefur verið mjög gott eða allt að 24 stiga hiti það sem af er af flokknum, þó hefur verið nokkuð mikill vindur enda sunnan áttin grimm hér út í sveit, stelpurnar láta það þó ekki stoppa sig í gleði og leik!

Mánudagur

Eftir að búið var að skipta stelpunum niður í herbergi og passað að allar vinkonur fengu að vera saman höfðu þær tíma til að skoða staðinn. Hér er stór og mikill skógur, skemmtilegt útileiksvæði; kassabílar, trampólín, körfuboltavöllur, rólur og rennibraut niður í fjöruna. Eftir hádegið var farið upp í laut þar sem stelpurnar fóru í nokkra skemmtilega leiki og að kaffitíma loknum fengu þær að prófa að vaða í vatninu og fara út á bát. Á kvöldin hér á Hólavatni eru kvöldvökur þar sem sungið er og foringjar sýna leikrit, sögð er saga og sungin lög. Eftir fyrstu kvöldvökuna var farið að hátta og græja sig fyrir svefninn. Nokkrar fundu fyrir smá heimþrá en það er eðlilegt á nýjum stað og sérstaklega fyrstu nóttina. Stelpurnar sofnuðu allar á endanum en hér er einn starfsmaður á næturvakt sem athugar hvort allar séu ekki örugglega sofnaðar. 

Hádegismatur: Skyr og brauð

Kaffitími: Bananakaka

Kvöldmatur: Hakk og spagetti

Kvöldkaffi: Ávextir og kex

Þriðjudagur

Stelpurnar vöknuðu kl. 8:30. Morgunmatur var kl. 9:00 en þá var haldið á morgunstund. Eftir hádegið var farið í ævintýraleik þar sem stelpurnar áttu að leysa þrautir. Leikurinn heppnaðist mjög vel og var ákveðið að bjóða stelpunum að hoppa í vatnið sem var mjög vinsælt enda veðrið með besta móti! Margar hoppuðu af bryggjunni en sumar létu sér það nægja að vaða út í vatnið af ströndinni. Kvöldið heppnaðist síðan vel en eftir kvöldvöku var haldið náttfatapartý þar var dansað og haldin limbókeppni auk þess sem foringjar sýndu leikrit. Það voru því þreyttar en sáttar stelpur sem flestar voru fljótar að sofna!

Morgunmatur: Hafragrautur, morgunkorn, mjólk og súrmjólk

Hádegismatur: Grjónagrautur

Kaffitími: Eplakaka með rjóma

Kvöldmatur: Steiktur fiskur

Kvöldkaffi: Ávextir og kex

Miðvikudagur

Eftir hefðbundin morgunn var skorað á stelpuhópinn í fótbolta, rokið var ansi mikið en leikurinn heppnaðist afar vel. Vegna þess hve veðrið var gott var ákvðeðið að leyfa þeim að hoppa aftur í vatnið en allar 32 stelpurnar fóru í vatnið í þetta skiptið og margar voru í langan tíma! Það var ótrúlega skemmtilegt að sjá hvað þær voru duglegar að hvetja hvor aðra áfram og hjálpa hvor annarri og fyrir vikið voru þær margar heillengi að leika sér í vatninu! Kvöldið heppnaðist afar vel og kl. 23 voru allar stelpur sofnaðar enda fjörugur dagur að baki!

Morgunmatur: Hafragrautur, morgunkorn, mjólk og súrmjólk

Hádegismatur: Súpa og brauð

Kafftími: Kleinur, kex, ávextir

Kvöldmatur: Pizza

Kvöldkaffi: Ávextir og kex