Hæhó frá Hólavatni!
Dagurinn byrjaði á Bongo-Blíðu í sveitinni en morgun rútínan var á sínum stað, morgunmatur, fánahylling og morgunstund.
Herbergin tóku sig síðan saman og héldu af stað í Hóló–olympics. Þar voru hinar ýmsu þrautir og verkefni leyst. Stelpurnar tókust á við krafta þrautir eins og t.d. skókast hins Gullna Hælaskó og hversu hratt þú getur klætt þig í eins mörg björgunarvesti og hægt er.
Eftir að þrautir voru leystar fengu stelpurnar Hólavatns sóða pasta að hætti kokksins.
Þær fóru allar saddar og sælar frá matarborðinu. Eftir hádegismatinn skoraði starfsfólkið á stelpurnar í fótbolta, leikurinn var æsispennandi og veittu stelpurnar starfsfólkinu mikla samkeppni og var allt jafnt 4-4 fram á lokamínútu þegar lið starfsmanna skoruðu sigurmarkið, forstöðukonan var svo ánægð með þátttöku og frammistöðu stelpnanna í leiknum að hún hoppaði í vatnið af gleði.
Eftir allan ærslaganginn í fótboltanum var farið inn í seinniparts hressingu, boðið var upp á dýrindis skúffuköku að hætti vatnsins.
Veðrið var svo hlýtt og notalegt að ákveðið var að leyfa stelpunum að hoppa í vatnið þrátt fyrir smá vind. En það hefur verið mjög mikil spenna að fá að komast í vatnið.
Stelpurnar fóru svo allar í heita sturtu og huggulegheit eftir það.
Foringjar og forstöðukona unnu svo hörðum höndum að flétta alla hausa sem þáðu það. Á meðan var föndrað og perlað eins og um verksmiðju-vinnu væri að ræða.
Eftir hamaganginn í vatninu var hópurinn orðin svangur en þær þurftu ekki að örvænta mikið því Pizzurnar voru komnar sjóðheitar úr ofninum sem vakti mikla lukku!
Kvöldvakan var á sínum stað með enn meira bulli og rugli en áður og ég er viss um að stelpurnar fái strengi á morgun eftir hlátursköst kvöldsins.
Stelpurnar fóru sáttar á koddann og dagurinn því að enda.
Sveita kveðja, Ída forstöðukona
Myndir frá flokknum má finna hér – https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720318606822/with/53847884262