HæHæ,
Veisludagur er gengin í garð en fimmtudagar í sveitinni eru alltaf haldnir heilagir. Stelpurnar vöknuðu og fengu spari morgunverð, en hér var borið fram kakó með morgunverðinum. Allar fóru stelpurnar sáttar frá matarborðinu og tilbúnar að takast á við daginn með bros á vör og kakó í maga.
Við komum okkur af stað í daginn enda mikil veisluhöld sem biðu okkur.
Morgunstund var á sínum stað og stelpurnar fengu að fræðast um kristna trú og KFUM&K þær leystu svo létt verkefni, enda er mikilvægt að læra smá en leika mikið!
Veður var ekki kannski að leika við okkur í dag í sveitinni en við fengum mikinn vind og nokkra rigningardropa með inn á milli. Við létum það þó ekki stoppa okkur og stelpurnar tókust á við áskorun frá foringjum en þær fóru í Hóló-escape. Þar leistu stelpurnar ýmsar þrautir en þurftu þó á forða sér frá hinum stórhættulega tusku-kalli sem átti það til að stroka út stig stelpnanna. Þær létu hann þó ekki stoppa sig og brilleruðu eins og í flest öllu öðru.
Eftir þrautirnar og hlaupin var grjónagrautur borinn á boðstóla og hvarf hann hratt ofan í lýðinn. Föndur hélt svo áfram að venju á meðan matsalnum var umbreytt í 5 stjörnu veitingastað þar sem heiðursgestum var boðið upp á hamborgara. Eftir kvöldverðinn fóru stelpurnar sáttar og sælar á kvöldvöku sem var skrautleg að venju. Þar kom m.a. í ljós að cocktailsósa sé ekki besti farðinn og að einhver hafi mögulega prumpað í kryddbrauðið í kaffinu; ekkert var þó sannað.
Eftir hamagang starfsfólksins var kveikt upp í kamínunni og sykurpúðar voru grillaðir. Með því leið á lok okkar seinasta heila dags hér á Hólavatni og fóru stelpurnar sáttar að sofa og starfsfólkið meyrt. Við á Hólavatni erum yfir okkur ánægð með vikuna og viljum þakka öllum þeim frábæru stelpum sem til okkar komu fyrir æðislega viku.
Með allra bestu kveðju,
Ída Hlín, forstöðukona
Myndir úr flokknum – https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720318606822/