Hólavatn 7.fl – dagur 3

Kæru foreldrar og forráðamenn

Hér á Hóló heldur gleðin áfram, þótt sólin hafi ekki látið sjá sig í dag var hlýtt og gott veður. Eftir morgunmat var farið að undirbúa sig fyrir daginn og herbergin fyrir stjörnuskoðun. Þá var haldið á fánahyllingu og síðan á Biblíulestur við fjöruborðið þar sem við sátum saman í hring og ræddum um hvað við erum þakklátar fyrir og að ef við þurfum einhvern að tala við þá er Guð aldrei utan þjónustusvæðis eða með á tali. Stelpurnar eru áhugasamar og duglegar að hlusta  og alltaf gaman að spjalla við þær um heima og geima. Í hádegismat var pasta og vatn sem stelpunum fannst voða gott og borðuðu vel af. Farið var í ratleik um svæðið og ýmis verkefni leyst saman. Í kaffi var ylvolg gulrótarkaka sem rann ljúflega niður. Foringjafótboltaleikur var haldinn á vellinum þar sem foringjar buðu í allar stelpur sem vildu spila á móti þeim og voru svo sigurvissir að þeir sögðust ætla að hoppa út í vatnið ef þeir myndu tapa – sem þeir svo gerðu og hoppuðu út í við mikinn fögnuð stelpnanna.

Það var síðan pizza í kvöldmat og leikritakvöldvaka, þar sem þær stelpur sem vildu leika leikrit fengu að setja það upp. Það  voru svo margar sem skráðu sig að sumar þurfa að sýna á morgun

En góður dagur að kveldi kominn og stúlkur á leið í bælin sín og fá bænaforingja til sín að spjalla og lesa fyrir nóttina.

Það væri voða gott að heyra frá ykkur ef þið höfðuð hugsað ykkur að sækja stelpuna ykkar eitthvað fyrr á föstudaginn – annar erum við að lenda hjá Glerárkirkju um 15-leytið.

Kærleikskveðjur, Hanna Lára forstöðukona og foringjar

p.s. kíkið á myndirnar okkar – https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720318811195/