Dagurinn hófst snemma hjá sumum herbergjum svo það þurfti að skerpa á að við vekjum ekki næstu herbergi eða alla hæðina þótt við séum sjálf útsofin – en svona er yfirleitt fyrsti morgunn í sumarbúðum.

Eftir morgunmat var fánahylling og morgunstund þar sem við ræddum um náttúruna hér í kring, hvort við ættum einhverja uppáhalds staði úti í náttúrunni og hvernig við berum ábyrgð á umhverfi okkar, allt í tengslum við það að náttúran sé heilög sköpun Guðs sem okkur er gefið að tilheyra.

Hluti krakkana fór í tejurta leit og tíndi blóðberg, ljónslappa og vallhumalsblöð. Við kynntumst ýmsum plöntum og grösum sem vaxa villt víða á Íslandi og kenndum þeim að þekkja og nýta sum þeirra.
Hópurinn útbjó svo te fyrir hádegisverðinn og krakkarnir drukku hátt í 8 lítra af jurtatei.

Aðrir fóru í bátana og sum þeirra eru orðin hörku ræðarar, það var gaman að fylgjast með reyndari krökkum kenna nýjum vinum réttu handtökin við að leysa og festa bátana, eða að fara í björgunarvestin og tilfinningin okkar er sú að hópurinn í heild sé mjög samrýmdur og flottur.

Eftir hádegisverð var ævintýraferð þar sem við kynntum ýmsum kynjaverum sem búa á Hólavatni, álfkonu, dverg, norn og sjálfum Hólavatnsorminum. Í lokin gekk hluti hópsins upp á toppin á hólnum og mættu svo þreytt og svöng í dýrindis kaffitíma þar sem Laufey matráður hafði galdrað fram sjónvarpsköku og skúffuköku.

Um kvöldið var einn af hápunktum Hólavatnsdvalarinnar. Eftir kvöldvöku sendum við þau í háttinn, en þegar öll voru lögst upp í rúm og komin í ró settum við partý tónlist í gang og rifum þau í náttfatapartý inni í matsal sem endaði á ís stund. Krakkarnir sofnuðu þreyttir og sælir eftir langan dag.

Myndir frá þessum degi munu birtast á morgun.