Það var ræs um kl.9 og eftir morgunmat og morgunstund þar sem við ræddum um Miskunnsama Samverjann var „tuskuleikur“ – krakkarnir hlupu um svæðið og leystu þrautir og gættu þess að leiðtogar næðu þeim ekki og þurrkuðu af þeim stig sem þau unnu sér inn fyrir þrautirnar.
Mjólkursending dagsins kom ekki svo við þurfum að redda okkur mjólk frá bændum sem voru til í að leggja okkur lið. Grjónagrauturinn í hádeginu var því úr alvöru sveitamjólk í dag (engar áhyggjur, hún gerilsneiddist við suðuna).
Eftir hádegi fengu þau val um að fara í körfuboltakeppni, búa til kókoskúlur eða fara að veiða í vatninu.
Það varð lítið úr veiðinni en sólin skein og það var afskaplega heitt svo börnin fengu sér mörg sundsprett.
Eftir kaffitíma opnuðu stelpuherbergin tvö sitthvora snyrtistofuna þar sem þær græjuðu hárgreiðslur fyrir alla sem vildu. Þau klæddu sig upp og sjænuðu fyrir Veislukvöldið þar sem við borðuðum hamborgara og áttum extra skemmtilega kvöldvöku þar sem góðir gestir litu við. Hingað kom hópur af foringjum frá fyrri árum sem mörg barnanna sem hafa verið áður þekktu – þeir lögðu okkur lið við leikritin og kósýstundina við varðeld niðri hjá vatni.
Börnin voru flest sofnuð um miðnætti en á morgun reiknum við með brottför um kl.14:00 og heimkomu í Glerárkirkju um kl.15:00.
Planið er að rölta yfir í Hólakirkju fyrir hádegi og grilla svo pylsur í hádegismat.
Reiknum með góðum lokadegi.
Takk fyrir mig
Sindri Geir forstöðumaður 3.flokks.