Í tilefni af 50 ára vígsluafmæli sumarbúða KFUM og KFUK við Hólavatn var haldinn afmælisfögnuður laugardaginn 20. júní. Dagskráin hófst með því að 14 manns hjóluðu frá Akureyri og fram á Hólavatn tæplega 40 kílómetra leið. Klukkan tvö hófst svo hátíðardagskrá í blíðskaparveðri. Jóhann Þorsteinsson, ritari stjórnar Hólavatns, bauð gesti velkomna og rifjaði upp í stuttu máli aðdraganda og upphaf sumarstarfs við Hólavatn. Því næst flutti Auður Pálsdóttir, formaður KFUM og KFUK á Íslandi, kveðju frá stjórn og afhenti Hreini Andrési Hreinssyni, formanni stjórnar Hólavatns, fallegan sköld með árnaðaróskum í tilefni afmælisins. Fleiri afmæliskveðjur bárust og jafnframt voru sungnir Hólavatnssöngvar. Dagskráin endaði með því að Auður Pálsdóttir gerði Guðmund Ómar Guðmundsson að heiðursfélaga KFUM og KFUK á Íslandi fyrir óeigingjarnt og farsælt starf í þágu félagsins um áratuga skeið. Sannarlega ánægjuleg viðurkenning enda Guðmundur verið ein af helstu burðarstoðum félagsstarfsins á Norðurlandi um langt skeið. Að ræðuhöldum loknum var gestum boðið upp á afmælisköku og kaffi og svo tóku við bátsferðir, vatnabolti og leiktæki. Gestir nutu veðurblíðunnar fram eftir degi og í lok dags fór starfsfólkið saman og gróðursetti 80 furutré, 4 Reyniviðartré og 80 aspir. Sannarlega góður endir á 50 ára afmælisdeginum að gróðursetja tré fyrir framtíðina.
Myndir frá afmælishátíðinni má skoða hér.