Hólavatn 7.fl – dagur 2

Heil og sæl

Annar dýrðlegur dagur hér á Hóló. Flestar stelpur voru steinsofandi þegar átti að vekja um 8 – leytið en voru fljótar að koma sér af stað þegar þurfti að fara í morgunverð. Eftir morgunmat, fóru skvísurnar að klæða sig og græja út í daginn, herbergin voru undirbúin fyrir stjörnuskoðun og síðan fóru allar upp á fána. Beint eftir fánahyllingu var Biblíulestur þar sem var rætt hvað við værum allar einstakar, dásamleg sköpun Guðs sem við ættum að vera ánægðar með  og ekki vera alltaf að bera okkur saman við aðra. sungum skemmtileg lög og fórum í leik til að kynnast enn betur, áhugamálum og fleiru sem okkur datt í hug að deila með hinum. Í hádegismat var fiskur, kartöflur, grænmeti og djús. Fyrir og eftir mat var auðvitað farið á báta, sullað, leikið, föndrað, stingerkeppni, Varúlf í hengirúmi, hoppað og skoppað. Við vorum svo heppin að sólin lék við okkur annan daginn í röð. Eftir kaffi (sem var jógúrtkaka og ávextir), var hæfileikasýning úti á túni þar sem stelpurnar fóru á kostum. Í kvöldmat var dýrindis mexikókjúllasúpa sem skolaðist vel niður í stelpurnar. Kvöldvaka var ekki af verri endanum þar sem foringjar fóru fram úr sér í gríni og glensi og mikið hlegið, sungið og trallað. Margar orðnar vel þreyttar þegar átti að  fara að hvíla sig eftir hugleiðingu um kraftaverkin sem við sjáum í dag eða þau sem fara framhjá okkur afþví við erum með fyrirfram ákveðna hugmynd um hvernig hlutirnir muni verða. Epli og perur voru í kvöldkaffi og síðan var haldið af stað að græja sig fyrir bænó. En……. þegar stelpurnar áttu von á bænaforigjum inn í herbergi  þá byrjaði hávær tónlist og náttfatapartý byrjað. Þvílíka fjörið!! Dansað og leikið – japplað á  ís og sungið hátt.

En við eigum von á að stúlkurnar sofi vært og rótt í alla nótt

Kærleikskveðjur frá Hóló, Hanna Lára forstöðukona og foringjarnir

p.s – skoðið endilega myndir frá flokknum – https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720318811195/