Dagur 4 Veisludagur 

Það er komin fimmtudagur eða veisludagur sem er seinasti heili dagur flokksins þetta árið og ég skrifa hér með síðustu frétt fyrir sumarið 2024! 

Hólavatn eru ekki bara sumarbúðir fyrir okkur staffið þetta er heimilið okkar vikum saman yfir sumarið þar sem okkar eina markmið er að gleðja og skapa minningar fyrir krakkana sem koma til okkar. Á Hólavatni er gott að vera bæði sem starfsmaður og sem barn í flokk ég horfi björtum augum á framtíð Hólavatns og það mikilvæga starf sem við bjóðum upp á hér. En nóg um það hér kemur innsýn inn í daginn sem við áttum í dag- 

Þegar krakkarnir vöknuð tók sólin á móti okkur sem gladdi okkur mikið. Krakkarnir fengu veislu-dags morgunverð enda ekki annað hægt til að kick starta veislu deginum. 

Á boðstól voru heitar vöfflur með rjóma og sultu og heitt kakó til að skola þeim niður. Krakkarnir voru himinlifandi með þessa byrjun á deginum og fóru öll sátt frá borði. Við ákvöðum að nota alla sól sem við gátum og hentum okkur strax út á báta í huggulega morgun bátsferð um vatnið. Þó planið hafi verið að hafa þessa bátsferð huggulega þá þurfti samt undirritaður að fara í björgunar leiðangur eftir krökkum sem höfðu “dottið” ofan í vatnið og bátum sem voru við það að kynnast botni Hólavatns. En það blessaðist allt á endanum og við hlægjum af því núna. 

Við brunuðum svo beinustu leið í hádegisverð en þar beið okkur fiskréttur að hætti kokksins. Þau voru ekki lengi að skutla matnum í sig enda höfðum við engan tíma að missa í sólinni, eftir mat var búið að setja upp vatnsrenni braut og opna vatnið fyrir busli! Það er ekkert betra en að synda í Hólavatni og ég trúi því með öllu hjarta að þetta kalda vatn hafi einhverskonar töfra áhrif á fólk. 

Í kaffi tímanum fengum við ömmusnúða og ávexti til að ná upp orku fyrir næsta dagskrárlið sem var Capture the flag, en það er liða keppni með það markmið að ná fána hins liðsins. Það var mikið keppnis skap í krökkunum og allir skemmtu sér vel. Eftir hlaupin var ekkert annað í stöðunni en að koma krökkunum í sitt fínasta púss vegna þess að hinn eini sanni 5 stjörnu vatna veitingastaður var við það að opna dyrnar sínar fyrir viðskiptavinum kvöldsins. Matseðill kvöldsins var einfaldur en strangheiðarlegir Hamborgarar sem klikka aldrei, þeir voru svo góðir að sumir náðu að torga 3 borgara! 

Veislukvöldvakan var troðfull af skemmtunum og leikhópur Hólavatns var sveitt að hlaða út leikritum og skemmtunum fyrir krakkana sem skemmtu sér konunglega. 

Sveita stelpan náði að draga krakkana í lok sýningar niður að vatni sem endaði með því að krakkarnir hoppuðu út í og fengu sér miðnætur sundsprett. Til að ná upp hita eftir vatnið var búið að kveikja í kamínunni og krakkarnir fengu að grilla sykur púða við brakandi eld og rólega kvöld tónlist. 

Við endum því þennan dag með þakklæti, bros á vör og góðar minningar af Hólavatni. 

Forstöðukona fólksins – Ída Hlín Steinþórsdóttir og foringjar <3

Myndir úr flokknum – https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720319033160/