2.flokkur Hólavatni

Dagur 1: Frá Glerárkirkuplaninu héldu 31 spennt börn að Hólavatni í mildu veðri. Skyr í hádegismat og farið í leiki til að kynnast hvert öðru upp í laut. Bátarnir voru opnir eftir kaffi og boðið upp á fleiri leiki. Kvöldvakan vakti kátínu með leikritum foringjanna og söng okkar allra. Það var ákveðin áskorun fyrir fáeina að sofna og koma sér í öryggisgírinn, en á kvöldin koma stundum þessar fínu tilfinningar fram og þá er gott að vera með marga í starfsmannahópnum sem hafa það hlutverk að minna börnin á hvað margt er spennandi framundan á Hólavatni. Það gekk vel að lokum.

Dagur 2: Vakið kl. 8 að morgni, morgunmatur, og morgunstund þar sem kennt var um Biblíuna og hvað Gamla Testamentið og Nýja Testamentið þýðir og örskýring á muninum á Guði og Jesú og hvað er að finna í Biblíunni á hraðferð, ásamt því að segja þeim sögu af Davíð og Golíat og líka þegar Jesú stillti storminn, en báðar sögurnar fjalla um að treysta Guði. Farið var í hið margrómaða Hóló-Olympic (með furðulegum íþróttagreinum og sérstökum spinnigal-þrautum. Það virtist fara mjög vel í mannskapinn. Flestir taka virkan þátt í leik sem boðið er upp á. Veðrið er áfram milt og ekki hefur rignt í dag, þótt sjáist í skýin. Eftir hádegi var boðið upp á vatnslitamálun úti, útileikinn Kubb ásamt því að vatnið var opið. Jú og svo er trampólínið iðulega í skoppandi notkun. Framundan er kvöldmatur og stútfull dagskrá á kvöldvöku.

Dagur 3: Því var fagnað með klappi hve dugleg börnin hafa verið að hafa náð helmingi nótta í gistingu á Hólavatni. Sum þurftu á þeirri hvatningu að halda og ég tel að þeim hafi fundist bara gott að klappa fyrir sér. Búin er að byggjast upp gleði og meiri kjarkur hjá flestum börnum og góður gangur á þeim málum.
Eftir morgunstund var boðið upp á frjálsan tíma, og bátar opnir. Eftir hádegismat söfnuðu foringjarnir börnunum saman fyrir sérstaka tilkynningu, úrvalslið foringja var kynnt inn og Þjóðsöngurinn sunginn því við skoruðum á börnin í Staffabolta. Starfsmenn unnu leikinn 10-9, hjúkk, þar skall hurð nærri hælum. Samt tóku fjölmargir foringjar afleiðingum þess að hafa næstum tapað og stukku út í vatnið – og buðu reyndar þeim börnum sem vildu að stökkva með sér af bryggjunni. Mikil gleði var með það, um 15 °C voru að því tilefni 😉
Dýrindskaffitími með bananaskúffuköku lék við bragðlaukana.
Í framhaldi var boðið upp á föndurtíma, eins og reyndar oft áður. Málað, perlað og vinabönd. Framundan er sneisafull kvöldvaka!

Dagur 4:
Í dag var gengið upp á hólinn austan við sumarbúðirnar sem Hólavatn er nefnt eftir, skottúr sem þó gaf börnunum mikið, að sjá stórkostlegt útsýnið og njóta veðursins og skellt í nokkrar hópmyndir. Opnað var fyrir bátana að því loknu.
Eftir hádegi hófst undirbúningur fyrir hæfileikasýningu sem hófst eftir kaffitíma, en börnin voru frjó að koma með ýmsa leikþætti og dans. Ekki má gleyma að mikil gleði var yfir litaðri sköffins (skúffuköku-muffins) í kaffitímanum.
Veislukvöld hófst svo með hátíðarkvöldverði með hamborgurum og með því. Að því loknu var blásið í kvöldvöku með almennum fíflaskap sem endaði í algjörri vitleysu þar sem fín frú og sveitastelpa sem komu að heimsækja okkur stukku út í vatnið með æðibunugangi. En það endaði nú vel því einhvern veginn var töfraður fram varðeldur við vatnið og sykurpúður birtust skyndilega sem runnu ljúflega ofan í krakkaskarann. Allir glaðir að loknum vel heppnuðum degi.

Dagur 5:
Fallegur dagur, með vel tímasettum úða, en þurrki þegar við gengum yfir í Hólakirkju þar haldin var síðasta morgunstundin. Sveinn frá Vatnsenda var þar að taka á móti okkur, enda eru það sonur hans og tengdadóttir sem eru á Hólum og hann öllum hnútum kunnur. En hann leyfði börnunum að hringja kirkjuklukkunum en þær hanga ofan við aðaldyrnar og bjöllum er hringt með keðjum sem hanga niður og sum börnin sveifluðust aðeins upp í loftið þegar klukkurnar sveifluðust til. Á stundinni var fjallað um litaþema Biblíunnar og hvað litirnir gull-lita, svartur, rauður, hvítur og grænn þýddu og spannst góð umræða um það. Auk þess var börnunum bent á að gott væri að halda áfram að kynnast Guði og tala við hann. En ein leiðin til að kynnast honum betur væri að nota hluta skjátímans í að heyra sögur af honum og þá var bent á app sem heitir „Bible App For Kids“ með sögum talsettum á íslensku og hreyfimyndum. Foreldrarnir ættu að geta aðstoðað við að hlaða því niður.
Pylsuveisla, afhending verðlauna fyrir umbúnaðarkeppni og kveðjustund var á körfuboltvellinum í dynjandi sólskyni sem kom við í kveðjuskyni. Takk fyrir yndislega viku.

Myndir frá 2. flokki eru hér:

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720327095948/

Kveðjur frá öllu starfsfólki hér,
Sigurður Bjarni Gíslason, forstöðumaður