32 börn mættu kát á bílaplan Glerárkirkju kl.9 í morgun og héldu af stað fram í fjörð.
Við byrjuðum á að fara yfir reglur staðarins áður en krakkarnir fóru að kanna staðinn og umhverfið. Þau voru fljót að finna trampólínið og hluta af hengirúmmunum sem eru falin í skóginum. Það voru örlítil vonbrigði þegar þau fundu lundinn með jarðarberjaplöntunum því þær eru blómgaðar en berin ekki farin að þroskast.
Eftir að við borðuðum vel af skyri og brauði í hádeginu hélt hópurinn upp í laut þar sem við fórum í nafnaleiki, skotbolta og allskonar hópefli til að kynnast betur.
Eftir kaffi opnuðum við bátana, það hafði verið mikil eftirvænting en börnin hlustuðu vel á reglur og varnaðarorð og skemmtu sér vel við róður og busl.
Þau kalla mikið eftir því að fá að vaða og synda í vatninu en við geymum það fram að sólardegi.
Hér er milt veður, 8°C en skýjað.
Við fengum hakk og spagettí í kvöldmat og börnin voru greinilega svöng eftir daginn svo við þurftum að sjóða nokkur kíló af spagettíi til viðbótar eftir að allt kláraðist.
Þau fengu mörg hver að kynnast Hólavatnskvöldvöku í fyrsta skipti og allir fóru sáttir að sofa um kl.22:00. Það gekk vel að ná ró, enda voru þau þreytt eftir daginn.
Við hlökkum til næstu daga!
Hér má sjá myndir frá flokknum, við bætum við nýjum eftir því sem líður á vikuna: