Börnin sváfu vel og fóru seint á fætur, morgunmat var seinkað og þau átu vel.
Fyrir hádegi áttum við góða morgunsamveru með söng og fræðslu um Biblíuna áður en krakkarnir fóru út að leika, þetta er fyrsti dagurinn sem við finnum fyrir vindi, það var blés á okkur að sunnan en þrátt fyrir það var mjög heitt og sólin gægðist í gegnum skýin.

Eftir hádegi skoraði starfsfólk á krakka í fótbolta. Ef krakkarnir töpuðu þyrftu þau að hoppa í vatnið, en ef starfsfólkið tapaði þyrfti það að róa út á vatn og synda í land. Við tók æsispennandi fótboltaleikur enda keppnisskapið svakalegt í þessum krakkahópi. Niðurstaðan var 3-2 sigur starfsfólksins. Það bárust kærur og kvartanir vegna dómara, sem vissulega var starfsmaður, svo við samþykktum að starfsfólk þyrfti að synda í land og þeir krakkar sem vildu myndu stökkva í vatnið.

Það var mikið buslufjör og rúmlega helmingur hópsins sem hoppaði í vatnið og naut þess að svamla.

Í kaffinu var heitt kakó og kanel snúðar og fram að kvöldmat voru flestir krakkarnir í rólegum leik inni, enda kom örlítill hitaskúr á okkur þá.

Um kvöldið var hæfileikakeppni og krakkarnir höfðu æft upp brandara og leikþætti sem þau sýndu.

Þegar klukkan nálgaðist 21:00 voru flest farin að nudda augun af þreytu og börnin fóru sæl að sofa.

Við höfum bætt myndum frá degi 2 og 3 inn í myndaalbúm flokksins.

IMG_3491