3. flokkur – dagur 4

Tíminn hefur heldur betur flogið áfram á Hólavatni. Síðasta heila deginum er lokið og stefnt er á heimferð á morgunn. Þessi dagur hefur verið senn fallegur, hlýr og viðburðaríkur í sumarbúðunum sem fyrri dagar. Það er alveg hreint ótrúlegt hvað við höfum verið heppin með veður þessa vikuna, sólin hefur leikið við okkur og veðurblíðan verið allsráðandi. Í dag var veisludagur og var hann haldinn hátíðlegur. Formleg hátíðardagskrá hófst á brennóleikjum við foringja því næst var haldið í veislukvöldverð þar sem stelpurnar klæddu sig upp fyrir kvöldið. Í kvöldmatinn voru afar veglegir hamborgarar sem runnu ljúflega niður í stelpurnar. Þvínæst tók við veislukvöldvaka þar sem starfsfólk sýndi stórfenglega leikþætti og sungu hið nýja Hólvatnslag. Þreyttar og sælar stúlkur lögðust til svefns í kvöld. Af öðrum dagskrárliðum dagsins má m.a. nefna hárgreiðslukeppni og furðuleikahátíð, sem innihélt afar spennandi stígvélaspark.

Á morgun heimsækjum við Hólakirkju, pökkum saman og eigum kveðjustund. Þið megið búast við okkur í Sunnuhlíð klukkan 15 á morgun.

Hér má sjá myndir úr flokknum

Við starfsfólkið höfum svo sannarlega notið vikunnar með dætrum ykkar og vonumst við Hólvetningar til þess að sjá þessar spræku stúlkur aftur að ári.

Starfsmenn Hólavatns þakka fyrir sig.

Bestu kveðjur,

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona í 3. flokki

3. flokkur – dagur 3

Þar sem klukkan er orðin margt hérna á Hólavatni ætlar undirrituð að láta myndirnar tala sínu máli að mestu. Fallegur, sólríkur og annríkur dagur að baki sem innihélt m.a. vatnafjör, báta, busl, EM- fótboltaleik, sveitaferð og náttfatapartý. Seinnipartinn fórum við í heimsókn á sveitabæinn Vatnsenda þar sem stelpurnar fengu að mjólka kýr, leika sér í heyinu, gefa heimalning að drekka auk þess að heilsa upp á kettling og hund. Til að toppa ferðina fengu þær far með Sveini bónda á heyvagni til baka og að sjálfsögðu var sungið Hólavatnslög alla leiðina til baka. Eftir kvöldvöku ætti dagurinn að öllu jöfnu að vera lokið en þeim að óvörum tók við náttfatapartý með tilheyrandi dansi, leikþáttum og sprelli. Ánægðar og þreyttar stúlkur lögðust til svefns í kvöld.

Hér eru nokkrar myndir frá því í dag.

Bestu kveðjur,

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona.

3. flokkur – Dagur 2

Í dag vöknuðu stúlkurnar eftir fyrstu nóttina á Hólavatni og blasti við okkur alveg dásamleg veðurblíða, sem stúlkurnar eru aldeilis búnar að njóta. Í dag er búið að busla heilmikið, sigla um á bátum á vatninu og flestar stúlkurnar fengið að prófa kúluna, sem gerir manni kleyft að ganga á vatni. Eftir kaffi fóru þær í ævintýraleik þar sem „geimverur“ birtust í skógarrjóðrinum og þær þurftu á aðstoð „prófessors Vandráðs“ að halda til að leysa þrautir. Sumum stelpunum stóð nú ekki á sama þegar geimverunar birtust en vildu meina að þær hafi nú vitað frá upphafi að þetta væru ekki alvöru geimverur. Kvöldvaka að hætti Hólavatns var haldin í kvöld og fékk hluti stúlknahópsins að stíga á stokk með eigin atriði. Hinn helmingurinn fær að sýna annað kvöld. Í svona mikilli útiveru og dagskrá eru það svangar stúlkur sem mæta í matmálstímana en þær hafa verið heldur betur duglegar að borða matinn og kræsingarnar sem matráðskonan okkar ber fram, enda eru þær ekki af verri endanum.

Á morgun höldum við ótrauðar áfram.

Bestu kveðjur,

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona í 3. flokki.

Hér má sjá nokkrar myndir frá flokknum.

3. flokkur, dagur 1

Í morgun voru mættar 33 sprækar stúlkur í Sunnuhlíð fullar tilhlökkunar að komast á Hólavatn. Ferðin gekk vel og var hafist handa við að koma sér fyrir herbergjum eftir stutta kynningu á starfsfólki og helstu reglum. Þar með hófst fjörið! Sumar stúlkurnar tóku smá tíma í að kynna sér leiksvæðið á meðan aðrar eru öllum hnútum kunnar og vissu nákvæmlega hvar skyldi finna uppáhalds staðina og leiktækin. Helstu dagskrárliðir í dag voru hópeflisleikir, bátasiglingar og furðukeppni. Furðukeppnin verður í gangi alla vikuna og hófst keppnin í dag á brúsahaldi, sem gengur út á að halda fimm lítra brúsa á lofti og reyndi því aðeins á krafta stúlknanna. Ýmsar ólíkar greinar verða í boði í vikunni og má þar á meðal nefna stígvélaspark og broskeppni. Kvöldið var endað á klassískri kvöldvöku þar sem var heilmikið sungið, farið leiki og foringjar skemmtu stelpunum með hlægilegum leikþáttum. Það voru sælar og saddar stúlkur sem lögðust í bólið í kvöld sem bíða spenntar eftir ævintýrum morgundagsins. Það stefnir allt  í frábæra viku með yndislegum stelpum á Hólavatni.

Hér eru nokkrar myndir frá því í dag.

Bestu kveðjur,

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona í 3. flokki.

Sumarstarfsfólk KFUM og KFUK

Þessar vikurnar er sumarstarfsfólk KFUM og KFUK að gera sig tilbúið fyrir spennandi sumar í sumarbúðum félagsins. Á annað hundrað starfsmanna munu í sumar bjóða upp á fjölbreytta og spennandi dagskrá fyrir börn og unglinga á öllum aldri. Allt starfsfólk hefur tekið fjölbreytt námskeið og fengið ítarlega fræðslu á vettvangi KFUM og KFUK og á vegum Æskulýðsvettvangsins.

Starfsmannahópurinn samanstendur af fólki á öllum aldri með fjölbreytta og ólíka reynslu. Í hópnum eru nýliðar sem eru í efri bekkjum menntaskóla og háskólanemar. Meðal starfsmanna eru foreldrar og félagsráðgjafar, prestar og háskólakennarar. Einhverjir í starfsmannahópnum vinna sína fyrstu viku í sumar, aðrir hafa yfir 25 ára reynslu í sumarbúðastarfi.

KFUM og KFUK á Íslandi er stolt af þeim mikla fjölda hæfileikaríkra ungmenna sem vinna í sumarbúðunum á hverju sumri. Félagið er jafnframt þakklátt fyrir reynsluboltana sem mæta til leiks ár eftir ár til að miðla af reynslu og þekkingu, en jafnframt tilbúin til að taka þátt í að þróa og bæta enn frekar það frábæra starf sem unnið er í sumarbúðunum okkar.

Hægt er að nálgast lista yfir þá sumarstarfsmenn sem nú þegar hafa skilað inn mynd og stuttri kynningu á http://kfum.is/blog/staff-category/sumarstarfsfolk/.

Aðalfundur KFUM og KFUK á Akureyri og aðalfundur Hólavatns

Aðalfundur KFUM og KFUK á Akureyri og aðalfundur Hólavatns verða haldnir mánudaginn 14. mars í félagsheimilinu í Sunnuhlíð kl. 20:00. Á fundunum fara fram venjuleg aðalfundarstörf, starfsskýrslur kynnar, endurskoðaðir reikningar lagðir fram, fjárhagsáætlanir kynntar, kosið er í stjórnir og umræður um starfið fara fram. Allir fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi hafa rétt til setu í aðal- og ársfundum starfsstöðva félagsins.

Félagsfólk er hvatt til að fjölmenna á fundinn og láta sig varða um starfið.

Sumarstörf hjá KFUM og KFUK 2016

Á hverju ári ræður KFUM og KFUK á Íslandi mikinn fjölda sumarstarfsfólks til starfa í sumarbúðum og á leikjanámskeiðum félagsins. Um er að ræða spennandi, gefandi og umfram allt fjölbreytt störf í Kaldárseli, Ölveri, Vatnaskógi, Vindáshlíð og á Hólavatni, ásamt leikjanámskeiðum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ.

Umsóknarfrestur er til 1. mars næstkomandi með rafrænum umsóknareyðublöðum sem hægt er að nálgast hér fyrir neðan.

Öllum er frjálst að sækja um. Þeir sem sækja um þurfa að skrifa undir að þeir samþykki að það megi óska eftir fullu sakavottorði þeirra hjá sakaskrá ríkisins. Það er skilyrði fyrir ráðningu að umsækjandi samþykki það. Þegar valið stendur á milli tveggja jafn hæfra einstaklinga, nýtur sá forgangs sem tekur virkan þátt sem leiðtogi í vetrarstarfi KFUM og KFUK.

Þeir umsækjendur sem fá vinnu samþykkja að sækja námskeið fyrir starfsfólk sumarbúða. Námskeiðin eru nauðsynleg forsenda þess að starfa í sumarbúðum KFUM og KFUK. Fyrir þá sem hafa áður starfað í sumarbúðum KFUM og KFUK er mikilvægt að sækja slík námskeið árlega.

Nánari upplýsingar má fá hjá Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK, Holtavegi 28, Reykjavík í síma 588-8899.

Athugið: Umsækjendur sem sækja um starf hjá fleirum en einum sumarbúðum þurfa að fylla sérstaklega út umsóknareyðublað fyrir hverjar og einar sumarbúðir (og leikjanámskeið) sem þeir sækja um starf hjá.

Rafræn umsóknareyðublöð:

Kaffisala Hólavatns og ljósmyndasýning

Árleg kaffisala sumarbúðanna Hólavatni fer fram sunnudaginn 16. ágúst kl. 14.30-17.00. Fjölmargt í boði fyrir alla fjölskylduna, útileiktæki, bátar o.fl. Rétt er að vekja athygli á því að ekki er tekið við greiðslukortum en gjald fyrir fullorðna er 1.500 kr. en 500 kr. fyrir börn 6-12 ára.  Á kaffisölunni verða til sýnis og sölu fuglamyndir Eyþórs Inga Jónssonar en söluandvirði myndanna rennur til sumarbúðanna. Sýningin ber yfirskriftina „Fuglar í nágrenni Hólavatns“ og er styrkt af Menningarsjóði Akureyrar og er í tilefni 50 ára afmælis Hólavatns.

Sumarið gekk ljómandi vel á Hólavatni í sumar en alls dvöldu tæplega 250 börn í 9 dvalarflokkum og er það mjög svipuð aðsókn og sumarið 2014. Þrátt fyrir frekar kaldan júlímánuð var góð stemming og mikið um útiveru og bátaferðir. Það er óskandi að vinir og velunnarar Hólavatns vilji koma og taka þátt í gleðinni með okkur á kaffisölu á sunnudaginn. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Mýbit í sumarbúðum

Nýlega hefur borið mikið á fréttum af mýbiti á suðvesturhorni landsins þar sem sumarbúðirnar okkar Vatnaskógur, Vindáshlíð og Ölver eru staðsettar. Okkur hafa borist fregnir af slíkum bit tilfellum hjá starfsfólki og börnum sem hafa dvalið í sumarbúðunum, bæði í síðustu viku og þessari.

Þetta er hluti af náttúrunni og lítið hægt að gera. Þó reynum við að vera með fyrirbyggjandi ráðstafanir eins og kostur er. Við mælum með að börnin klæðist langermabolum, háum sokkum og síðum buxum, einnig geta flugnanet eða flugnavarnarsprey komið að góðum notum.

Ef bit á sér stað má búast við óþægilegum kláða sem í flestum tilfellum er hægt að róa með aloe vera kremum, Afterbite stifti, ofnæmislyfinu Histasín/Lóritín, eða sterakremi eins og Mildison. Hægt er að láta börnin hafa þessi úrræði meðferðis þegar haldið er í sumarbúðirnar. Þó má geta þess að ofantalin úrræði eru flest í boði í sumarbúðunum. Kláðinn virðist líða hjá eftir nokkra daga og bitin gróa. Athugið að ef að aðili er illa haldinn af bitum mælum við með því að leitað sé ráða læknis.

Við vitum að Náttúrufræðistofnun Íslands er að skoða þetta sérstaklega og fylgjumst við með fréttum þaðan.

Starfsemin heldur áfram óbreytt og við lítum bara á þetta sem áskorun sem við tökumst á við.