Hólavatn 50 ára

 

Í tilefni af 50 ára vígsluafmæli sumarbúða KFUM og KFUK við Hólavatn var haldinn afmælisfögnuður laugardaginn 20. júní. Dagskráin hófst með því að 14 manns hjóluðu frá Akureyri og fram á Hólavatn tæplega 40 kílómetra leið. Klukkan tvö hófst svo hátíðardagskrá í blíðskaparveðri. Jóhann Þorsteinsson, ritari stjórnar Hólavatns, bauð gesti velkomna og rifjaði upp í stuttu máli aðdraganda og upphaf sumarstarfs við Hólavatn. Því næst flutti Auður Pálsdóttir, formaður KFUM og KFUK á Íslandi, kveðju frá stjórn og afhenti Hreini Andrési Hreinssyni, formanni stjórnar Hólavatns, fallegan sköld með árnaðaróskum í tilefni afmælisins. Fleiri afmæliskveðjur bárust og jafnframt voru sungnir Hólavatnssöngvar. Dagskráin endaði með því að Auður Pálsdóttir gerði Guðmund Ómar Guðmundsson að heiðursfélaga KFUM og KFUK á Íslandi fyrir óeigingjarnt og farsælt starf í þágu félagsins um áratuga skeið. Sannarlega ánægjuleg viðurkenning enda Guðmundur verið ein af helstu burðarstoðum félagsstarfsins á Norðurlandi um langt skeið. Að ræðuhöldum loknum var gestum boðið upp á afmælisköku og kaffi og svo tóku við bátsferðir, vatnabolti og leiktæki. Gestir nutu veðurblíðunnar fram eftir degi og í lok dags fór starfsfólkið saman og gróðursetti 80 furutré, 4 Reyniviðartré og 80 aspir. Sannarlega góður endir á 50 ára afmælisdeginum að gróðursetja tré fyrir framtíðina.

Myndir frá afmælishátíðinni má skoða hér.

3. flokkur á Hólavatni

 

Á morgun, föstudag lýkur þriðja flokk sumarsins á Hólavatni en stelpurnar hafa notið veðursins og skemmtilegrar dagskrár í vikunni. Á 17. júní var boðið upp á Candyfloss og farið í skrúðgöngu og margt gert til að gera þjóðhátíðardaginn einstakan. Heimkoma er á morgun kl. 15.00 við Sunnuhlíð. Á laugardag er svo 50 ára afmælishátíð á Hólavatni fyrir alla fjölskylduna og hefst dagskráin kl. 14.00.

Myndir úr flokknum koma um helgina en nokkrar myndir frá þriðjudeginum eru þegar komnar á netið og má skoða þær hér.

Dagskrá starfsmannanámskeiðs sumarbúðanna 2015

 

1. júní mánudagur

Kl. 8:30 Rúta frá Holtavegi (vinsamlegast skráið ykkur í rútu)
Kl. 9:30 Morgunhressing í Matskála
Kl. 10:00: Fræðsla 1 í Gamla skála
Kl. 12:00 Matur
Kl. 13:00 fræðsla 2
Kl. 15:30 Kaffi
Kl. 16:00 Fræðsla 3
– Skyndihjálp / brunavarnir Jón Pétursson og Kristján Sigfússon
Kl. 18:30 Kvöldmatur
– Skyndihjálp / brunavarnir Jón Pétursson og Kristján Sigfússon
Kl. 21:30 Eitthvað smá fjör – Helgistund
Kl. 22:30 Kvöldkaffi

2. júní þriðjudagur

Kl. 09:30 Morgunmatur
Kl. 10:00 Fræðsla 4
Kl. 12:00 Matur
Kl. 13:00 Fræðsla 5
Kl. 15:30 Kaffi
Kl. 16:00 – 17:30 stjórnir sumarbúðanna ræða við sitt fólk
Kl. 18:30 Frágangur og þrif
Kl. 19:00 – Veislumatur
Kl. 20:30 – Heimför

 

Opnunartími skrifstofu í apríl og maí 2015

Yfir páskahátíðina verður lokað á skrifstofunni frá og með 2. apríl og opnar aftur á hefðbundnum tíma 7. apríl.

Opnunar– og afgreiðslutími í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28, Reykjavík, í apríl og maí 2015 verður alla virka daga milli kl. 09:00-17:00 nema það verður lokað sem hér segir:

2.apríl: Lokað
3. apríl: Lokað
6. apríl: Lokað
23. apríl: Lokað
1. maí: Lokað
14. maí: Lokað
25. maí: Lokað

Við óskum ykkur gleðilega páska.

Bestu kveðjur,
Starfsfólk Þjónustumiðstöðvar KFUM og KFUK á Íslandi

Skráningarkvöld miðvikudaginn 25.mars

Við viljum minna á að skráningar í sumarbúðir (Vindáshlíð, Vatnaskóg, Hólavatn, Ölver og Kaldársel) og leikjanámskeið (Lindakirkju og Reykjanesbæ) hefjast miðvikudagskvöldið 25.mars kl. 18:00.

Netskráning verður í boði á www.sumarfjor.is en einnig verður opið á skrifstofu félagsins á Holtavegi 28 frá kl. 18 til 21 og er öllum velkomið að koma og skrá á staðnum eða hringja í s. 588 8899. Númerakerfi verður sett upp kl. 17:00.

Á Akureyri verður hægt að koma við í félagsheimilinu okkar í Sunnuhlíð kl. 18 til 20 og skrá á staðnum.

Til að geta skráð barn eða börn þá þarf viðkomandi að hafa við hendina kennitölu barns, kennitölu forráðamanna, símanúmer og netföng tengiliða og greiðsla fyrir dvölina (ýmsar greiðsluleiðir eru í boði á skrifstofunni).

Það er spennandi sumar framundan hjá okkur KFUM og KFUK sem þið ættuð endilega að kynna ykkur.

Aðal- og ársfundir innan KFUM og KFUK

Aðal- og ársfundir starfseininga KFUM og KFUK á Íslandi verða allir haldnir í marsmánuði og hefjast kl. 20:00.

Á aðal- og ársfundum fara fram venjuleg aðalfundarstörf, starfsskýrslur kynntar, endurskoðaðir reikningar lagðir fram, fjárhagsáætlanir kynntar, kosið er í stjórnir og umræður um starfið fara fram. Allir fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi hafa rétt til setu í aðal- og ársfundum starfsstöðva félagsins.

Félagsfólk er hvatt til að fjölmenna á fundina og láta sig varða um starf félagsins.

Dagskrá funda:

Halda áfram að lesa: Aðal- og ársfundir innan KFUM og KFUK

Umsóknarfrestur sumarstarfs rennur út 1. mars

Ennþá er opið fyrir starfsumsóknir en við þurfum að fá til liðs við okkur stóran hóp af frábæru, jákvæðu og hæfileikaríku ungu fólki. Það er meiriháttar að vinna með börnum í sumarbúðum og á leikjanámskeiðum KFUM og KFUK. Vilt þú bætast í þann hóp? Skelltu þá inn umsókn og það er aldrei að vita, kannski erum við að leita að þér. Umsóknarfrestur rennur út sunnudaginn 1. mars.

Athygli er vakin á því að sækja þarf um sérstaklega fyrir hverja starfsstöð. Nánar hér.

Frábær sumarstörf í boði

14809379733_290ccd8685_z

Þetta er ekki öskudagslið. Þetta er bara mynd sem tekin er á nokkuð venjulegum degi í sumarbúðum KFUM og KFUK síðastliðið sumar. Ennþá er opið fyrir starfsumsóknir en við þurfum að fá til liðs við okkur stóran hóp af frábæru, jákvæðu og hæfileikaríku ungu fólki. Það er meiriháttar að vinna með börnum í sumarbúðum og á leikjanámskeiðum KFUM og KFUK. Vilt þú bætast í þann hóp? Skelltu þá inn umsókn og það er aldrei að vita, kannski erum við akkurat að leita að þér. Umsóknarfrestur rennur út 1. mars.

Athygli er vakin á því að sækja þarf um sérstaklega fyrir hverja starfsstöð. Nánar hér

Umsóknir fyrir sumarstörf

sumarhaus

Á heimasíðu KFUM og KFUK eru nú komin rafræn umsóknareyðublöð vegna sumarstarfa í sumarbúðum og á leikjanámskeiðum KFUM og KFUK fyrir sumarið 2015. Einungis er hægt að sækja um störf með rafrænum hætti og er umsóknarfrestur til 1. mars næstkomandiOkkur hefur borist ábending um að umsóknarkerfið virki e.t.v. ekki í Chrome-vafranum frá Google.

Spennandi, gefandi og fjölbreytt sumarstörf eru í boði hjá Kaldárseli, Ölveri, Vatnaskógi, Hólavatni og Vindáshlíð, ásamt leikjanámskeiðum. Þeir umsækjendur sem fá vinnu samþykkja að sækja námskeið fyrir starfsfólk sumarbúða. Námskeiðin eru nauðsynleg forsenda þess að starfa í sumarbúðum KFUM og KFUK. Fyrir þá sem hafa áður starfað í sumarbúðum KFUM og KFUK er mikilvægt að sækja slík námskeið árlega.

Öllum er frjálst að sækja um. Þeir sem sækja um þurfa að skrifa undir að þeir samþykki að það megi óska eftir fullu sakavottorði þeirra hjá sakaskrá ríkisins. Það er skilyrði fyrir ráðningu að umsækjandi samþykki það.

Óskilamunir sumarstarfsins 2014

Við viljum minna fólk á að vitja óskilamuna frá sumarstarfi sumarbúða og leikjanámskeiða KFUM og KFUK. Þriðjudaginn 30.september verður óvitjuðum óskilamunum ráðstafað til hjálparstarfs. Við viljum biðja fólk um að athuga hvort það hafi nokkuð villst fatnaður annarra barna og unglinga með heim og ef svo er að koma því til okkar á Holtaveg 28.

Óskilamuna má vitja í Þjónustumiðstöð okkar að Holtavegi 28, Reykjavík. Opið frá kl. 9 til 17 alla virka daga. Óskilamunir frá Hólavatni má hinsvegar nálgast í félagshúsi KFUM og KFUK á Akureyri, Sunnuhlíð 12.

óskilamunir