Frábær ævintýraflokkur á Hólavatni

Dagana 20.-26. júlí verður ævintýraflokkur á Hólavatni fyrir 11-13 ára stráka og stelpur. Þetta er engin venjuleg skemmtun og það verður ekkert sparað. Farið verður í sólarhringsútilegu, keppt í fjölmörgum íþróttagreinum og í miðjum flokk verður söngvakeppni þar sem Jónsi úr Svörtum fötum kennir réttu taktana og dæmir svo frammistöðu keppenda ásamt dómnefnd.
Auk þess fer hópurinn í heimsókn á Vatnsenda sem er næsti bær og þar geta allir prófað að mjólka kýrnar, hoppa í heyinu, gefa kálfum pela, klappa kettlingum og margt fleira.
Í Ævintýraflokk á Hólavatni komast 24 krakkar í heildina og því er persónuleg stemmning og enginn útundan. Hægt er að koma með flugi frá Reykjavík á mánudagsmorgni og fara heim síðdegis á sunnudeginum.

Frétt á N4, sjónvarpi Norðurlands um Hólavatn

Fyrr í vikunni var birt frétt, eða viðtal, sem tekið var við Jóhann Þorsteinsson, svæðisfulltrúa KFUM og KFUK á Norðurlandi um starfsemina á Hólavatni. Af mörgu er að taka enda framkvæmdir í fullum gangi og aðeins nokkrar vikur í fyrsta flokk sumarsins. Skráning hefur verið mjög góð og eru tveir flokkar af sjö fullbókaðir og góð þátttaka í hinum flokkunum þótt en sé hægt að bæta fleirum við.
Rétt er að vekja athygli á fyrsta flokk sumarsins sem ber nafnið Frumkvöðlaflokkur því hann er fyrir 7-8 ára börn sem vilja prófa sumarbúðir í fyrsta sinn og gista í tvær nætur. Þessi flokkur er ekki bara styttri en aðrir flokkar heldur verða jafnframt tveir leikskólakennarar sem bætast í hóp starfsmanna fyrir þennan flokk sérstaklega svo hægt sé að sinna þessum yngri börnum en betur en ella.
Þá hefur tekist að fá frábæra viðbót inn í ævintýraflokk sumarsins sem er dagana 20.-26. júlí og er fyrir 11-13 ára stráka og stelpur. Í þann flokk mun Jónsi úr hljómsveitinni Í Svörtum fötum koma í heimsókn og leiðbeina þátttakendum í söngvakeppni og sitja í dómnefnd um kvöldið, auk þess sem hann mun án efa taka lagið með krökkunum. Í ævintýraflokk fara krakkarnir líka í sólarhringsútilegu og taka þátt í æsispennandi dagskrá allan tímann.

Fréttina af N4 má skoða hér.

Byggingaframkvæmdir við Hólavatn

Framkvæmdir við nýjan 210 fm svefnskála hófust við Hólavatn í síðustu viku. Talsvert verk var að grafa grunninn og voru um 800 rúmmetrar af efni teknir úr holunni eða um 60 vörubílsfarmar. Sem betur fer þurfti ekki að fara langt með efnið og var það notað til að breikka heimreiðina. Um 100 rúmmetrar af möl voru svo keyrðir í holuna og fengum við hana hjá góðum nágrönnum á Vatnsenda. Í síðustu viku hófst jafnframt framleiðsla á forsteyptum einingum hjá Loftorku á Akureyri og fer sá hluti verksins vel af stað. Í þessari viku stendur til að steypa undirstöður fyrir veggeiningarnar og slá upp fyrir kökur sem steyptar verða um leið og veggeiningarnar hafa verið reistar. Vinnuflokkar verða á uppstigningardag og á laugardaginn og geta áhugasamir haft samband við johann(hjá)kfum.is.

Myndir frá framkvæmdum má skoða hér.

Upphaf framkvæmda við Hólavatn

Föstudaginn 17. apríl var undirritaður verksamningur á milli sumarbúðanna á Hólavatni og Loftorku um framleiðslu á forsteyptum einingum fyrir nýjan skála sem rísa mun á Hólavatni. Heildarverðmæti samningsins er um 10 milljónir króna og því ljóst að stórt skref er stigið í áttina að nýrri byggingu. Verkáætlun gerir ráð fyrir því að grunnur verði tekinn nú um næstu mánaðarmót og áður en sumarstarf hefst verður neðri hæð hússins reist. Eftir að sumarstarfi lýkur verður svo haldið áfram og stefnt er að því að loka húsinu fyrir veturinn. Fjármögnun þessa stóra verkefnis hefur farið vel af stað en ljóst er að betur má ef duga skal og er velunnurum bent, meðal annars, á sölu styrktarpenna sem fást á skrifstofu félagsins en hver penni er merktur með ártali sem tengist sögu sumarbúðanna frá 1965 til okkar dags.

Skráning í sumarbúðirnar heldur áfram – yfit 1.600 börn skráð

Frábær skráning hefur verið í sumarbúðir KFUM og KFUK og eru 11 flokkar þegar fullbókaðir og margir aðrir að fyllast. Skráningin er í fullum gangi og um að gera að hringja strax til að tryggja barninu þínu frábæra skemmtun í sumar.
Eftirfarandi flokkar eru fullbókaðir og verið er að skrá á biðlista:
Hólavatn: 3. flokkur
Vatnaskógur: 2. 3. og 4. flokkur
Vindáshlíð: 2. 3. 5. 6. og 8. flokkur
Ölver: 5. og 8. flokkur

Sumarblað KFUM og KFUK komið út

Sumarblað KFUM og KFUK er komið út og mun berast inn um bréfalúgur landsmanna í dag. Í blaðinu er að finna allar upplýsingar um hinar víðfrægu sumarbúðir félagsins Vatnaskóg, Vindáshlíð, Ölver, Kaldársel og Hólavatn sem og upplýsingar um 28 leikjanámskeið sem verða á Holtavegi, í Guðríðarkirku og í Hjallakirkju í Kópavogi.
Skráning í sumarstarfið hefst á laugardag á vorhátíðum félagsins sem hefjast kl. 12:00 á Holtavegi 28 í Reykjavík og kl. 14:00 í Sunnuhlíð á Akureyri.

Smellið hér til að skoða blaðið.
Smellið hér til að fara beint inn á upplýsingasíðu um skráningu í sumarbúðir og leikjanámskeið.

Skráning í sumarbúðirnar hefst næsta laugardag!

Laugardaginn 28. mars kl. 12 hefst skráning í sumarbúðir KFUM og KFUK og á leikjanámskeiðin. Skráning fer fram á Holtavegi 28. Húsið opnar kl. 11.30.
Skráð verður eftir númerum fyrstu klukkutímana og verður hægt að fylgjast með dagskrá vorhátíðar og heimsækja kaffihúsið á meðan beðið er eftir afgreiðslu.
Einnig er skráð í síma 588 8899
Skráning í sumarstarfið heldur svo áfram mánudaginn 30. mars í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í s. 588 8899 kl. 9 – 17 alla virka daga.
Upplýsingar um hópa og verð má finna í flokkaskrám sumarbúðanna og námskeiðaskrá leikjanámskeiðanna.

HÓLAVATN

ÖLVER

KALDÁRSEL

LEIKJANÁMSKEIÐ KÓPAVOGI

VATNASKÓGUR

LEIKJANÁMSKEIÐ HOLTAVEGI

VINDÁSHLÍÐ

LEIKJANÁMSKEIÐ GRAFARHOLTI

Óvissuferð YD KFUK á Akureyri

Mánudaginn 9. mars fóru 27 stelpur úr yngri deild KFUK á Akureyri í óvissuferð sem endaði á Flugsafni Íslands. Þar tók Svanbjörn Sigurðsson framkvæmdastjóri á móti hópnum og fræddi hann okkur um ýmislegt tengt íslenskri flugsögu. Sérstaklega fannst stelpunum gaman að kíkja inn í stjórnklefa Gullfaxa sem var fyrsta þota íslendinga og svo var líka spennandi að labba undir stóru vélarnar. Þá voru nokkrar glöggar stelpur sem þekktu Beaver vél Arngríms Jóhannssonar sem snertilenti á Hólavatni á kaffisölu í ágúst síðastliðnum.
Nokkrar myndir voru teknar í heimsókninni og er hægt að skoða þær með því að smella
HÉR

Ánægjuleg hátíðarsamvera á Akureyri

Sunnudaginn 22. febrúar var haldinn hátíðarfundur í KFUM og KFUK á Akureyri. Í upphafi var boðið upp á ljúfenga kjúklingasúpu og brauð og síðan kaffi og marengstertu. Á samverunni var Þórey Sigurðardóttir gerð að heiðursfélaga KFUM og KFUK á Íslandi og Tómas Torfason formaður félagsins afhenti henni innrammað skjal því til staðfestingar og þakkaði henni fyrir trúfesti og þjónustu í þágu félagsins um áratuga skeið. Þórey var ráðskona við Hólavatn í 30 ár og lengst af var hún jafnframt forstöðukona í stúlknaflokkum. Þá var hún alla tíð mjög virk í vetrarstarfi KFUK. Þórey þakkaði af alhug fyrir auðsýnda hlýju og bað starfi KFUM og KFUK allrar Guðs blessunar.
Síðar þetta sama kvöld gengu þrír einstaklingar til liðs við félagið og samverunni lauk með hugvekju Bjarna Guðleifssonar. Mikil gleði ríkti meðal félagsfólks sem sótti samveruna og fóru allir ríkari heim.

Flokkaskrár sumarbúðanna komnar á netið

Gleðilegt nýtt ár. Nú eru flokkaskrár sumarbúðanna í Vatnaskógi, Vindáshlíð, Ölveri og Hólavatni komnar á netið og flokkaskrá Kaldársels er væntanleg á allra næstu dögum. Verð í sumarbúðirnar verður birt í febrúar og starfsmannalistar fljótlega í mars. Skráning í sumarbúðirnar hefst á vorhátíð KFUM og KFUK 28. mars kl. 12:00 í Þjónustumiðstöðinni Holtavegi 28.